Samtök foreldrafélaga grunnskóla í Kópavogi

Samkóp eru samtök foreldrafélaga grunnskóla í Kópavogi. Í Kópavogi eru starfandi 9 grunnskólar á vegum bæjarins og einn einkarekin. Foreldrafélag hvers grunnskóla á vegum bæjarins á fulltrúa í stjórn Samkóp.
Markmið Samkóp eru:

 • Að standa vörð um réttindi barna til menntunar og þroska
 • Að beita sér fyrir auknum áhrifum foreldra á skólastarf
 • Að stuðla að skipulegu samstarfi aðildarfélaganna
 • Að vera sameiginlegur málsvari foreldra gagnvart sveitarfélagi og stjórnvöldum
 • Að fylgjast með framkvæmd grunnskólalaga og aðalnámskrár og beita sér fyrir umbótum í skólastarfi
 • Að afla reglulega upplýsinga um starf foreldrafélaga og miðla þeim
 • Að stuðla að opinberri umræðu um skóla- og uppeldismál, m.a. með ársþingum, félagsfundum, málþingum, ráðstefnum, greinaskrifum og myndum starfshópa
 • Að starfa með öðrum samtökum og félögum sem sinna málefnum barna og foreldra á Íslandi og í nálægum löndum.

Aðkoma foreldra að skólastarfi hefur sýnt, með rannsóknum, að hafi jákvæð áhrif á skólastarf. Má þar nefna:

 • Betri líðan barna í skólanum
 • Aukinn áhugi og betri námsárangur
 • Aukið sjálfstraust nemenda
 • Betri ástundun og minna brottfall
 • Jákvæðara viðhorf foreldra og nemenda til skólans
 • Forvarnargildi- samstaða gegn hópþrýstingi

Aukinheldur veitir þetta foreldrum betri innsýn inn í skólakerfið þegar/ef til þess kemur að taka á stórum málum sem upp geta komið. Oft ná foreldrar sem þekkja skólakerfið vel að grípa fyrr inn í aðstæður heldur en foreldrar sem þekkja kerfið minna.
Með þátttöku í foreldrastarfi fæst tækifæri til að kynnast öðrum foreldrum og læra hvert af öðru ásamt því að byggja upp góðan samstarfsanda, enda líklegt að viðkomandi foreldrar verði samhliða ykkur út skólagöngu barnanna.
Foreldrar hafa mikil tækifæri til að kynnast umhverfi barna sinna og fá tækifæri til að móta það og bæta.