Lög Samtaka foreldrafélaga í Kópavogi.

1.gr.
Félagið heitir SAMKÓP, samtök foreldrafélaga í Kópavogi. Heimili þess og varnarþing er í Héraðsdómi Reykjaness.

 

2.gr.
Markmið samtakanna eru:

 • að standa vörð um réttindi barna til menntunar og þroska
 • að beita sér fyrir auknum áhrifum foreldra á skólastarf
 • að stuðla að skipulegu samstarfi aðildarfélaganna
 • að vera sameiginlegur málsvari foreldra gagnvart sveitarfélagi og stjórnvöldum

3.gr.
Markmiðum þessum hyggjast samtökin ná meðal annars með því:

 • að fylgjast með framkvæmd grunnskólalaga og aðalnámskrár og beita sér fyrir umbótum í skólastarfi
 • að afla reglulega upplýsinga um starf foreldrafélaga og miðla þeim
 • að stuðla að opinberri umræðu um skóla- og uppeldismál, m.a. með ársþingum, félagsfundum, málþingum, ráðstefnum, greinaskrifum og myndun starfshópa
 • að starfa með öðrum samtökum og félögum sem sinna málefnum barna og foreldra á Íslandi og í nálægum löndum í samstarfi við Landssamtökin Heimili og skóla.

4.gr.
Aðild að SAMKÓP eiga foreldrafélög allra skólastiga í Kópavogi. Aðilar greiða árgjald sem ákveðið er á aðalfundi og er miðað við eitt árgjald á hvert aðildarfélag. Foreldrasamfélag hvers skóla tilnefnir einn fulltrúa og annan til vara í stjórn SAMKÓPS til tveggja ára. Fulltrúaráð SAMKÓP er skipað stjórnum aðildarfélaga. Ráðið kemur saman einu sinni á ári og oftar ef þurfa þykir. Foreldrafélög skulu leitast við að eiga fulltrúa á öllum þeim fundum sem SAMKÓP boðar til, hvort sem um er að ræða aðalfund, samráðsfund, fræðslufund eða aðra fundi.

5.gr.
Aðalfundur skal haldinn í maí ár hvert og skal boða til hans með minnst sjö daga fyrirvara. Formaður Samkóp ber ábyrgð á því að boða formenn og stjórn foreldrafélaga grunnskóla Kópavogs með tölvupósti eða sambærilegum hætti. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Allir foreldrar í Kópavogi eiga rétt á setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétti. Vægi atkvæða er eitt frá hverju foreldrafélagi. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála, sjá þó 10. grein.

 

6.gr.
Dagskrá aðalfundar skal vera:

 • Fundur settur
 • Skipan fundarstjóra og fundarritara
 • Skýrsla stjórnar varðandi verkefni liðins starfsárs
 • Umræður um skýrslu stjórnar
 • Ársreikningur samtakanna fyrir liðið starfsár lagður fram til samþykktar, ásamt áritun skoðunarmanna.
 • Lagabreytingar.
 • Kosningar (Formaður er kosinn til tveggja ára. Formaður skal ekki sitja lengur en 4 ár í senn. Einn skoðunarmaður af tveimur kosinn til tveggja ára.)
 • Árgjald ákveðið.
 • Önnur mál.
 • Fundi slitið.

7.gr.
Stjórn SAMKÓP skal skipuð formanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnendum. Kjósa skal sérstaklega formann á aðalfundi en stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Kjörtímabil er tvö ár. Formaður boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfundar. Stjórnin skal setja sér starfsreglur þa sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa hennar. Ef atkvæði falla jöfn á stjórnarfundum gildir atkvæði formanns tvöfalt.

 

8.gr.
Stjórn skal skipa fulltrúa foreldra í menntaráð Kópavogs og annan til vara. Menntaráðsfulltrúi skal ekki sitja lengur en 4 ár í senn. Fulltrúi foreldra starfar eftir erindisbréfi sem samþykkt er á aðalfundi.

 

9.gr.
Aðalfundur, fulltrúaráð og stjórn geta skipað starfshópa til að sinna sérstökum málum sem upp kunna að koma.

 

10.gr.
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi með samþykki 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna, enda hafi tillögur um lagabreytingar verið kynntar í fundarboði. Breytingartillögurnar verða að berast stjórn fyrir 15. apríl ár hvert.

 

11 gr.
Verði samtökunum slitið skulu eignir þeirra varðveitast á reikningi hjá Kópavogsbæ þar til sambærileg samtök taka til starfa innan sveitarfélagsins og 2/3 grunnskóla sveitarfélagsins samþykkja.

 

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi þann 22. maí 2013 í Kársnesskóla.
Lagabreytingar gerðar á 4., 6., 7. og 8. grein á aðalfundi 30. nóvember 2020.